3.8.2009 | 17:09
Gjaldþrota banki er ekki banki lengur!
Í lögum um fjármálastofnanir (2002/161) stendur:
------------------------------
13. gr. Rekstrarform.
Fjármálafyrirtæki skal starfa sem hlutafélag. Um rekstrarform sparisjóða gilda ákvæði VIII. kafla.
14. gr. Hlutafé og stofnfé.
Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé sparisjóðs, sbr. þó 77. gr., skal að lágmarki nema 450 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
B. Afturköllun starfsleyfis.
9. gr. Ástæður afturköllunar.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta:
1. hafi fyrirtækið fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
2. fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum laga þessara um stofnfé, hlutafé, eigið fé eða fjölda stofnfjáreigenda,
3. nýti fyrirtækið ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
4. fullnægi hluthafar, stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækis ekki þeim hæfisskilyrðum sem fram koma í 42. og 52. gr.,
5. sé um að ræða náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti sem um getur í 18. gr.,
6. [hafi ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli ákvæða um inngrip Fjármálaeftirlitsins í eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis skv. 100. gr. a ekki náð árangri eða hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla],1)
7. brjóti fyrirtækið að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
[Þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis skv. 6. tölul. 1. mgr. er [bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð fjármálafyrirtækis eða skiptastjóra við gjaldþrotaskipti á búi þess]2) heimilt, með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi að svo miklu leyti sem hún er nauðsynleg vegna bústjórnar og ráðstöfunar hagsmuna þrotabús.]3)
---------------------------------
Þegar banki verður gjaldþrota hlýtur hann sjálfkrafa að missa starfsleyfið sem banki frá FME og sú starfsemi sem skilanefndirnar stunda með leyfi FME t.d. rekstur gjaldþrota fyrirtækja sem fallið hafa til þrotabúsins eiga ekkert skylt við bankastarfsemi. Því finnst mér að gjaldþrota banki sé bara gjaldþrota hlutafélag og um það gilda ekki lög um bankaleynd.
Þess vegna á bara að opna allt bókhald gömlu bankanna, þ.m.t. lánabækurnar svo við fáum að sjá hvað var um að vera í þessum fyrirtækjum. Auðvitað koma þarna fram upplýsingar um fyrirtæki sem ekkert hafa til saka unnið en hvað skaðar það t.d. A.P.Möller Mærsk að það vitnist að þeir fengu lán frá Kaupþingi? Það var vitað að rekstur AP Möller gengur illa þessa dagana svo þetta lán sætir engri undrun! Hér verða meiri hagsmunir að ganga fyrir þeim minni!
Sé þetta ekki rétt þá er það sjálfsögð krafa til Alþingis að það breyti lögum um fjármálafyrirtæki þannig að skýrt sé kveðið á um að gjaldþrota banki falli ekki undir bankaleynd, alla vega ekki lánabækur hans og skipting og eign á hlutafé en þessi atriði virðast skipta mestu máli.
Ragnar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ragnar Eiríksson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nákvæmlega!
Margrét Sigurðardóttir, 3.8.2009 kl. 17:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.